2/04/2013

Listamaður í febrúar 2013 er Þóra Karlsdóttir


Þóra Karlsdóttir opnar málverkasýninguna "Back to the Roots"  í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri laugardaginn 9. febrúar, klukkan 15:00.


Þóra sýnir málverk sem hún vann í ágúst á síðasta ári meðan hún dvaldist í gestavinnustofunni í Listagilinu á Akureyri. Málverkin eru unnin m.a. með tækninni, image transfer, en þar notast Þóra við ljósmyndir sem faðir hennar Karl Hjaltason tók á bernskuárum hennar á Akureyri. Einnig sýnir Þóra vídeóverkið "Catcing the Spirit" sem hún vann á sama tíma.

Þóra stundar nú nám í myndlist við Evrópsku Lista Akademíuna í Trier í Þýskalandi og útskrifast í vor, en hún vinnur að lokaverkefninu um þessar mundir á Akureyri.

Þóra hélt sína fyrstu einkasýningu, ALL ABOUT RUST, í Luxembourg 2007. Einnig hefur hún sýnt víða erlendis, bæði í Luxembourg, Þýskalandi og Austurríki.
  Hún var m.a. valin til þátttöku í virtri samsýningu EVBK. Prum í Þýskalandi þrjú ár í röð, árin 2009, 2010 og 2011.

Þóra er fædd á Akureyri 1962 og ólst þar upp, en fluttist þaðan fyrir þrjátíu árum. Hún hefur búið víða erlendis síðastliðin tuttugu ár og er nú búsett í Luxembourg og þar er hún með vinnustofu í gamalli lestarstöð ásamt fleiri listamönnum.

Þóra hyggst flytja til Akureyrar aftur í vor þegar hún hefur lokið náminu og ætlar að vinna við myndlist. Í myndlistinni finnst henni mikilvægt að leita nýrra leiða og uppgötva nýjar aðferðir til tjáningar í listsköpun.

Sýning Þóru "Back to the Roots" stendur til 24.febrúar og eru allir velkomnir.
Mjólkurbúðin er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og eftir frekara samkomulagi þess utan.

Þóra Karlsdóttir s.6914839; thorakarlsdottir@gmail.com; http://karlsdottir.com/
Mjólkurbúðin s.8957173