R.Benedikta/Guðrún Benedikta Elíasdóttir útskrifaðist frá MHÍ sem myndlistarkennari með B.Ed 1987. Hefur síðan þá búið, kennt og starfað við myndlist í þremur löndum, Íslandi, Frakklandi og Lúxemborg.
Hún málar með litablöndu sem hún býr til sjálf “patine au vin” sem inniheldur m.a. hvítvín og egg. Blönduna hefur hún þróað og gert tilraunir með ýmis íblöndunarefni, m.a. eldfjallaösku og mulið grjót. Hún var bæjarlistamaður Kópavogs 1996. Hefur tekið þátt í sýningum á Íslandi, Lúxemborg, Belgíu, Noregi, Þýskalandi, Frakklandi, Englandi, Austurríki og Bandaríkjunum.
Guðrún flutti aftur til Íslands fyrir tæpum tveimur árum og hefur verið að sýna víðsvegar á Íslandi síðan, m.a. í Slúnkaríki á Ísafirði, Listasafni Hornafjarðar, Svavarssafni og á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Því var rökrétt framhald að koma til Akureyrar þar sem listalífið er öflugra en víða annars staðar.
Eitt verkefnið á meðan á dvölinni stendur er að finna jarðefni á staðnum til að nota í litablönduna og mun afrakstur vinnunnar verða sýndur á málverkasýningu í Populus tremula 27.og 28.september nk.